Gary Martin, framherji KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, heldur til Ósló á fimmtudaginn þar sem hann mun vera á reynslu hjá norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga.
„Við fengum formlega beiðni frá Vålerenga í hádeginu í dag. Hann fer út á fimmtudaginn og verður fram á sunnudag,“ segir Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.
Martin verður því ekki með KR í leik liðsins gegn Leikni í undanúrsiltum Reykjavíkurmótsins á fimmtudagskvöldið.
Vålerenga horfir greinilega til Íslands í leit að liðsstyrk eftir að liðið seldi Viðar Örn Kjartansson til Kína, en í síðustu viku keypti það Elías Má Ómarsson af Keflavík.
Gary Martin var nálægt því að ganga í raðir belgíska úrvalsdeildarliðsins Mouscron-Péruwelz í janúar en ekkert varð af þeim félagaskiptum.
Þessi 24 ára gamli framherji hefur verið markahæsti leikmaður KR undanfarin tvö tímabil í Pepsi-deildinni. Hann skoraði þrettán mörk bæði sumarið 2013 og 2014, en í heildina hefur hann skorað 33 mörk í 65 úrvalsdeildarleikjum fyrir KR.
