Leikirnir fara að sjálfsögðu fram á dúknum fræga sem er nú kominn á gólfið í Laugardalshöllinni enda stutt í fyrsta leik. Bikarúrslitahelgin hefst klukkan 17.15 í dag með undanúrslitaleik Vals og Hauka í Coca Cola bikar kvenna. Seinna í kvöld mætast síðan ÍBV og Grótta.
Starfsmenn Handknattleikssambandsins hafa nú sett inn skemmtilegt myndband af því þegar dúkurinn var settur á gólfið í Laugardalshöllinni og það er hægt að sjá myndbandið hér fyrir neðan.
"Dúkurinn er kominn á gólfið og allt að verða klárt fyrir hátíðarhöld næstu daga!," segir í fréttinni með myndbandinu inn á fésbókarsíðu HSÍ.
Þetta er sami dúkur og Danir urðu Evrópumeistarar á í Serbíu árið 2012 en HSÍ keypti hann á sínum tíma þar sem að allir alþjóðlegir landsleikir í Höllinni þurfa að vera spilaðir á svona dúk.