Grótta vann enn einn leikinn í 1. deild karla í handbolta síðastliðinn föstudag þegar liðið pakkaði nágrönnum sínum í KR saman, 31-22.
Grótta er með örugga fimm stiga forystu í 1. deildinni og hefur ekki tapað leik í fyrstu 19 umferðum deildarinnar. Það stefnir hraðbyri í Olís-deildina á nýjan leik.
Sjá einnig:Aron Heiðar: Brá að fá svona stykki á mig
Í leiknum á föstudaginn fékk Bjarnfinnur Ragnar Þorkelsson, leikmaður KR, beint rautt spjald fyrir vægast sagt gróft og ruddalegt brot á Aroni Heiðari Guðmundssyni, leikmanni Gróttu.
Eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan keyrir Bjarnfinnur Ragnar Gróttustrákinn í gólfið með þeim afleiðingum að hann liggur eftir. Bjarni Viggósson og Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómarar leiksins, voru ekki lengi að rífa upp rauða spjaldið.
KR-liðið er í fimmta sæti 1. deildarinnar með 19 stig, en það hóf aftur að spila meistaraflokkshandbolta á síðustu leiktíð eftir margra ára hlé.
Brotið má sjá eftir 2 mínútur og 20 sekúndur í myndbandinu, en það er fengið af Youtube-síðu handboltavefsíðunnar FimmEinn.is.
Fékk rautt spjald fyrir gróft brot | Sjáðu rosalegt högg á Nesinu
Tómas Þór Þórðarson skrifar