Bandaríkjamaðurinn J.B. Holmes leiðir þegar að Cadillac Championship er hálfnað en hann er á níu höggum undir pari eftir fyrstu tvo hringina.
Holmes fór á kostum á fyrsta hring og lék á 62 höggum eða tíu undir pari en hann var ekki jafn öflugur á öðrum hring í gær sem hann lék á 73 höggum eða einu yfir.
Það dugði honum þó til þess að halda forystunni en í öðru sæti er Ryan Moore á sjö höggum undir pari á meðan að Adam Scott, sem er að leika í sínu fyrsta stóra móti á árinu, er einn í þriðja sæti á sex höggum undir pari.
Besti kylfingur heims, Rory McIlroy, situr jafn nokkrum öðrum kylfingum í 11. sæti á samtals einu höggi undir pari en hann lék Doral völlinn á tveimur höggum undir pari í gær.
Hringur þrjú verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 17:00 í dag.
