Veiði

Flott byrjun fyrir austan hjá Stjána Ben og félögum

Karl Lúðvíksson skrifar
Flottur sjóbirtingur úr Tungulæk
Flottur sjóbirtingur úr Tungulæk Mynd: Stjáni Ben
Veiðileiðsögumaðurinn Stjáni Ben var með hóp viðskiptavina fyrir austan á sjóbirtingsslóðum við opnun ánna 1. apríl og það er óhætt að segja að þeim hafi gengið vel.

Stjáni hefur um árabil verið ötull í að fara um landið með erlenda veiðimenn eins og svo margir aðrir innlendir veiðileiðsögumenn hin síðustu ár en menn í þessum þjónustugeira veiðinnar eru sammála um að mikil aukning sé í fjölda erlendra veiðimanna og þeim fjölgar sem leita sér að annari veiði en dýrum laxveiðileyfum.

Við fengum smá veiðisögu frá Stjána Ben og deilum henni hér með lesendum Veiðivísis og minnum ykkur á að vera dugleg að deila með okkur veiðinni ykkar í sumar í máli og myndum.  Veiðimyndir og veiðisögur má senda á kalli@365.is

"Fór með tvo rússa og einn breta í opnun á Tungufljóti og svo beint í Tungulæk. Þeir lentu á Íslandi seinni partinn 1. Apríl og við brunuðum beint í Tungufljót. Það var 8 stiga frost þegar við komum og áin frosin svo við ákváðum að geyma veiðina til morguns. Uppúr hádegi gátum við loksins kastað á smá opna rönd í Syðri Hólma en austanrok stóð beint í andlitið á okkur sem hamlaði aflabrögðum.

Þann daginn fengum við eitthvað lítið en þó að mig minnir einhverja nokkra. Daginn eftir hafði hlýnað og ísinn að brotna og áin að ryðja sig. Þann daginn fengum við nokkra, þeirra á meðal einn 70 cm birting. Síðasta morguninn var farið að örla á lífi og áin nánast búin að ryðja sig en við náðum þó bara einum og misstum 4. Enduðum með 15 fiska í Tungufljóti.

Færðum okkur yfir í Tungulæk þar sem við byrjuðum með 26 fiska á fyrstu vakt. Það datt í logn um kvöldið og við skiptum í flotlínur, hitch og litla Sun Ray og náðum nokkrum fiskum þannig. Það var ágætt að hvíla sökkendalínurnar aðeins. Morguninn eftir var bongó blíða og við héldum áfram að nota flotlínur þangað til fór að blása. Það fór að rigna hressilega um kvöldið og við veiddum fram í myrkur með stórar svartar flugur í myrkrinu sem var mjög gaman. Þann daginn fengum við 43 fiska að mig minnir.

Daginn þar á eftir hélt mokið áfram og við fengum 64 þann daginn. Mikið af þessum fiskum voru alveg glænýjir með laust hreistur og það var magnað að sjá að klukkutíma eftir háflóð kraumaði Holan í Tungulæk og fiskur á í nánast hverju kasti. Það voru minni fiskar en virkilega fjörugir. Stærsti fiskurinn í ferðinni var 90 cm birtingur en við fengum líka 83 cm, 79 (allavega 2 ef ekki 3) og svo slatta 70+ cm. Bestu flugurnar voru litlar straumflugur yfir daginn (á sökkendalínur) og plasttúpur á flotlínu en á kvöldin voru það stóru svörtu straumflugurnar og Friggi sem var að virka vel."






×