Golf

Ólafía Þórunn að spila frábærlega í Sviss | Efst eftir tvo hringi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/GVA
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er að spila frábærlega á ASGI meistaramótinu í golfi í Sviss en Íslandsmeistarinn er með tveggja högga forystu þegar mótið er hálfnað.

Ólafía lék fyrsta hringinn í gær 70 höggum eða tveimur höggum undir pari og var þá í þriðja sætinu. Hún gerði enn betur í dag þegar hún kláraði á 66 höggum eða sex höggum undir pari.

Ólafía hefur þar með leikið fyrstu 36 holur mótsins á átta höggum undir pari og hefur tveggja högga forskot á Þjóðverjarna Oliviu Cowan og Nicole Goegele.

Ólafía Þórunn náði tveimur örnum í dag þegar hún lék tvær par fimm holur á þremur höggum. Hún vat einnig með fjóra fugla og tvo skolla.

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er í 10. til 13. sæti en hún lék á 72 höggum í dag eða á pari vallarins. Valdís Þóra kláraði fyrsta daginn á einu höggi undir pari.

Mótið er hluti af LETAS atvinnumótaröðinni í Evrópu en það er næst sterkasta atvinnugolfmótaröð kvenna á eftir sjálfri LET Evrópumótaröðinni. Þetta er þriðja mótið sem þær taka þátt í á mótaröðinni en Valdís endaði í 12.–15. sæti á síðasta móti á Spáni en Ólafía endaði í 20.–30. sæti.

Valdís og Ólafía hafa báðar fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi tvívegis, Valdís 2009 og 2012, en Ólafía 2011 og 2014.

Þetta er í fyrsta sinn sem tvær íslenskar konur eru með keppnisrétt á þessari mótaröð en Valdís Þóra er að hefja sitt annað tímabil á LET Access mótaröðinni. Stigahæstu keppendurnir á LET Access mótaröðinni í lok keppnistímabilsins vinna sér inn keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×