Ian Jeffs, þjálfari kvennaliðs ÍBV, var í viðtali hjá vefsíðunni fótbolti.net eftir 1-1 jafntefli á móti Þór/KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna á Akureyri í gær.
Shaneka Jodian Gordon tryggði Eyjaliðinu jafnteflið með marki á 66. mínútu eða fimm mínútum eftir að Þór/KA missti Ágústu Kristinsdóttur af velli með rautt spjald.
Ágústa hafði brotið á Gordon og fengið þá sitt annað gula spjald. Ágúst spilaði sem miðvörður og fyrirliðinn Karen Nóadóttir datt niður af miðjunni og niður í miðvörðinn eftir að hún fékk sitt annað gula spjald á níu mínútum.
Þetta voru einu spjöldin sem dómarinn Hjalti Þór Halldórsson lyfti í leiknum. Þegar blaðamaður hjá fótbolti.net spurði Ian Jeffs út í rauða spjaldið eftir leik varð þjálfari ÍBV-liðsins hinsvegar hissa.
„Rauða spjaldið? Hvenær kom það. Ég tók ekki einu sinni eftir því að það hafði gerst, ég þarf að horfa á það aftur. Ég var ekki að einbeita mér að því þegar það gerðist," sagði Ian Jeffs en það má sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér.
