Fjórum leikjum er lokið í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna.
Íslandsmeistarar tveggja síðustu ára, Stjarnan, unnu nauman 1-0 sigur á nýliðum KR á Samsung-vellinum.
Harpa Þorsteinsdóttir, markadrottning síðustu tveggja ára í Pepsi-deildinni, skoraði eina mark leiksins á 62. mínútu.
Breiðablik, sem er spáð sigri í deildinni, vann stórsigur á Þrótti á Kópavogsvelli. Lokatölur 5-0 fyrir Blika sem byrja tímabilið af krafti.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik en síðustu þrjú mörkin komu á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins. Fanndís Friðriksdóttir gerði tvö þeirra og Rakel Hönnudóttir eitt.
Valskonur unnu fyrirhafnarlítinn 3-0 sigur á Aftureldingu á Vodafone-vellinum. Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk og Vesna Elísa Smiljkovic eitt.
Þá vann Fylkir 2-0 sigur á Selfossi á heimavelli en nánar má lesa um leikinn með því að smella hér.
Leikur Þórs/KA og ÍBV hófst klukkan 15:30. Staðan er enn markalaus en leikið er í Boganum á Akureyri.
Ernir Eyjólfsson var í Kópavoginum og tók myndirnar sem fylgja réttinni.
Harpa tryggði Stjörnunni sigur á KR | Stórsigur Blika
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
