„Það er ekki hægt að lýsa því hversu gott það var á fá almennilegan dómara sem hafði tök á leiknum og var með einhverja línu.
„Það munar öllu að fá góða dómara eins og sást í fyrra markinu sem við skoruðum,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, um frammistöðu Garðars Arnar Hinrikssonar í leik Stjörnunnar og Breiðabliks í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á föstudaginn.
Línuvörðurinn flaggaði rangstöðu á Önnu Björk Kristjánsdóttur þegar hún skoraði fyrra mark Stjörnunnar en Garðar dæmdi markið gott og gilt enda fór boltinn af varnarmanni Blika og þaðan til Önnu.
„Níutíu og fimm prósent af dómurum sem eru settir á leik hjá okkur hefðu eflaust dæmt rangstöðu og ekkert pælt í þessu.
„Garðar var frábær í þessum leik. Við höfum oft fengið hátt setta dómara sem nenna ekki að dæma þessa leiki. Garðar gerði það og sýndi okkur og leiknum virðingu,“ sagði Ásgerður að endingu.
