Bandaríkjamaðurinn Bo Van Pelt og Japaninn Hideki Matsuyama leiða Memorial mótið sem fram fer á Muirfield vellinum en þeir léku fyrsta hring á 64 höggum eða átta undir pari.
Russell Knox og Jason Dufner deila þriðja sætinu á sex höggum undir en mörg góð skor sáust á fyrsta hring.
Næst besti kylfingur heims, Jordan Spieth, lék einnig vel á fyrsta hring en hann kom inn á 68 höggum eða fjórum undir pari.
Tiger Woods er meðal þátttakenda en hann er neðarlega á skortöflunni á einu höggi yfir pari.
Woods byrjaði mjög illa og fékk fjóra skolla og einn tvöfaldan skolla á fyrri níu holunum en hann vann sig til baka á þeim seinni og gæti með góðum öðrum hring náð niðurskurðinum.
Phil Mickelson fann sig heldur ekki á fyrsta hring og er á sléttu pari en bein útsending frá öðrum hring hefst í kvöld klukkan 18:30 á Golfstöðinni.
