Veiði

Bjarni Júlíussson og Eyrin í Norðurá

Karl Lúðvíksson skrifar
Bjarni Júlíusson með lax úr Norðurá
Bjarni Júlíusson með lax úr Norðurá Mynd: www.svfr.is
Þegar ungir og upprennandi veiðimenn vilja sækja sér þekkingu og góðra ráða leita þeir til sér reyndari veiðimanna og það ætlum við líka að gera í sumar.

Veiðivísir ætlar að leita góðra ráða um uppáhaldsveiðistaði þekktra veiðimanna sem eru hlaðnir reynslu og góðum ráðum fyrir þá sem leita til þeirra. Það er nefnilega þannig með veiðina að það að hitta sér reyndari veiðimann og fá hjá honum góð ráð getur hjálpað gífurlega mikið í næstu veiðitúrum og gert viðkomandi að betri veiðimanni í litlum skemmtilegum skrefum. Við ætlum að fá fjöldann allann af þekktum reynsluboltum til að segja okkur frá sínum uppáhaldsstað og hvernig á að veiða hann, jafnvel fá smá sögu af eftirminnilegri viðureign úr þeim veiðistað. Við ætlum að byrja þessa vegferð á fyrrum formanni SVFR, Bjarna Júlíussyni, sem hefur í gegnum tíðina verið sérdeilis viljugur til að gefa nýliðum góð ráð. Um uppáhaldsveiðistaðinn sinn segir Bjarni:

"Það er nú svo að þegar spurt er um uppáhaldsveiðistaðinn minn þá verð ég að játa að það koma margir staðir til greina. Kirkjuhólmakvíslin og brotið í Laxá í Aðaldal, þar tók ég fyrsta 20 pundarann minn. Breiðin í Hítará, þar sem við Dísa höfum horft á börnin okkar taka maríulaxana. Blóti í Svartá (sem er reyndar kominn undir þjóðveg nr. 1 í dag), þar sem ég landaði 19 punda laxi sjö ára gamall 1968. Allt eru þetta fallegir staðar sem miklar og góðar minningar eru bundnar við. En ætli ég verði samt ekki að velja Eyrina í Norðurá, það dýrðarplan, sem minn uppáhaldsstað.

Þó Eyrin sé jafnan talin göngustaður þá hef ég fengið fiska þar frá því í opnun (1.júní) til lokunar árinnar (10.september). Ég hef fengið þar stóra fiska, smáa fiska, marga fiska og fáa þegar ég hef kastað á hylinn. Ég hef átt unaðsstundir með fjölskyldu og vinum á grasflötinni undir klettinum og horft á vini mína veiða, eða bara legið þarna einn með sjálfum mér og horft á ána líða hjá. Ég hef staðið þarna á bakkanum og horft á tugi ef ekki hundruð fiska ganga hratt upp hylinn, líta ekki við flugunum mínu og hverfa upp fossinn. Ég hef fengið fiska þarna á stórar og þungar túbur í harðalandi efst í hylnum, á langar og léttar flottúbur alveg neðst á brotinu, á litlar örflugur, á gáruhnút … Ég veiddi þessa á um 30 ára skeið og hef sennilega sett í á þriðja hundrað laxa í þessum fallega hyl.

En stundum er það svo að það eru þeir stóru sem sluppu sem maður man best eftir. Árið 1987 setti ég í stórlax á Eyrinni í Jónsmessutúr með veiðihópnum Fjaðrafoki. Ég missti hann fyrir neðan Kaupamannapoll nærri tveimur tímum síðar. Var einn og átti erfitt með að landa honum. Árið 1996 setti ég í stórlax í opnun. Lenti í miklu basli með hann og á endanum þurfti ég að vaða á eftir honum þvert yfir ánna, yfir á Brotið. Áin var óvæð en ég þrælaði mér samt yfir, til þess eins að missa hann enda átakið á túbuna í kjafti laxsins, orðið öfugt. Árið 2006 setti ég í lax í opnun, þetta var falleg hrygna sem hefði orðið fyrsti lax sumarsins, hún hafði „tekið“ í harða landi fyrir miðjum hyl, tók strikið beint niður ána þ.a. mig grunaði strax að það hefði húkkast í hana. Þegar ég náði yfirhöndinni, í miðjum Almenningi og tókst að hnika henni að landi sá ég að þríkrækjan stóð í hnakkanum á henni. Sem betur fer lak úr henni áður en mér tókst að landa, það hefði verið sorglegt ef fyrsti skráði lax sumarsins hefði verið húkkaður.

Eyrin er margbrotinn staður. Í miklu vatni liggur laxinn ofarlega, jafnvel í harða landi. Þegar vatnið minnkar, þá færist hann neðar, í bolla í klöppinni fyrir miðri á skáhallt útaf læknum. Hann getur svo legið enn neðar á breiðunni og þar tekur hann oft í miðlungsvatni snemmsumars. Það þarf að taka fast en hægt á löxum sem taka neðarlega og teyma þá strax uppúr tökustaðnum og helst þreyta þá í Gaflhyl, þá er von til þess að hinir laxarnir taki, því þessi staður geymir stundum mikið af fiski. Hægur en þungur straumur, spegilslétt vatn, kvöldsólin speglast í vatninu um sjöleytið, eftir klukkutíma er skugginn fallinn á og þá fer hann að taka".

Við þökkum Bjarna fyrir skemmtilega frásögn.  Ef þú lesandi góður vilt fá einhvern veiðimann til að segja okkur frá sinum eftirlætis veiðistað máttu senda okkur þína tillögu að því við hvern við eigum að tala næst.  Þú sendir þína tillögu á kalli@365.is



 





×