Á maraþoninu voru sýndar sýningar í 9 leikhúsum í NY í 72 klukkutíma samfleytt.
Hópurinn vakti mikla athygli með sýningunni sinni The Improvised Saga, þar sem þau spunnu meðal annars kór-lag í fimmundarsöng.
Sýningin þeirra var á besta stað í dagskrá maraþonsins, í aðal-leikhúsinu og þurftu áhorfendur að bíða í nokkra klukkutíma til að komast inn. Eftir sýninguna voru íslensku spunaleikararnir margoft stoppaðir út á götum NY-borgar af fólki sem hafði setið í troðfullum salnum.

Hópurinn notaði tækifærið og fékk nokkra af færustu spunaleikurum NY til að þjálfa sig á meðan á dvölinni úti stóð og stefna á að flytja inn marga af þeim til Íslands á næstu misserum.
Flestir úr hópnum eru nú komnir heim til Íslands eftir viðburðaríka viku, en spunaleikkonurnar Blær og Steiney (sem eru einnig meðlimir Reykjavíkurdætra) eru ennþá í NY þar sem þeim hefur verið boðið að taka þátt í Hip Hop spunasýningu UCB-leikhússins þar sem margir af þekktustu röppurum Bandaríkjanna, eins og RZA úr Wu Tang Clan, hafa komið fram.
Það verður ekki í fyrsta sinn sem þær rappa á sviði NY en þeim var boðið að koma fram á tónleikum með eiganda hins sögufræga grín-klúbbs Comedy Cellar í síðustu viku.
Improv Ísland verður með maraþon-sýningu á menningarnótt í ágúst og vikuleg fjölbreytt spuna-grínkvöld í Þjóðleikhúskjallaranum í febrúar á næsta ári.
