Veiði

Mokið heldur áfram í Blöndu

Karl Lúðvíksson skrifar
Flottir eins árs laxar úr Blöndu
Flottir eins árs laxar úr Blöndu Mynd: Þorsteinn Hafórsson
Það er óhætt að segja að það sé sannkölluð mokveiði í Blöndu en áin var í síðustu viku með 1638 laxa veidda.

Það bíða margir spenntir eftir því að sjá hvenær áin fer yfir 2000 laxa en það er alveg óhætt að halda því fram að það sé bara daga spursmál hvenær það gerist. Samkvæmt Þorsteini Hafþórssyni leiðsögumanni við Blöndu hafa öll svæðin verið að gefa vel og það sem er sérstakt er að veiðimenn eru farnir að nota "hitch" mikið í Blöndu en það eru margir sem hafa haldið því fram að það væri svo til óhugsandi í lituðu vatni. Litlar flugur hafa einnig reynst veiðimönnum mjög drjúgar og þegar takan í ánni er góð eru stangirnar á svæði 1 hver af annari að ná kvóta.

Smálaxinn hefur komið virkilega vel haldin úr hafi og hafa stórar göngur verið í ánna síðustu daga. Veiðimenn sem voru t.d. nýlega á svæði þrjú og fjögur settu í hátt í 40 laxa á einum degi en náðu þó ekki nema rétt helmingnum á land þar sem menn voru að prófa sig áfram með sem allra minnstu flugurnar og þær hanga oft tæpt í laxinum. Meirihlutinn af aflanum hjá þeim var mjög vænn smálax og nokkrir vænir tveggja ára laxar. Það er flottur tími framundan í Blöndu og þar sem langt er í að áin fari í yfirfall er ómögulegt að segja hversu hátt veiðitölurnar úr henni gætu orðið.

 





×