Veiði

Laxá í Kjós gaf 137 laxa í liðinni viku

Karl Lúðvíksson skrifar
Margrét jóhannsdóttir threytir fyrsta flugulaxinn sinn í Laxá í Kjós
Margrét jóhannsdóttir threytir fyrsta flugulaxinn sinn í Laxá í Kjós Mynd: Haraldur Eiríksson
Laxá í Kjós fór frekar hægt af stað eins og fleiri ár á suðvesturlandi en veiðin hefur verulega aukist síðustu daga.

Áin fór undarlega seint af stað miðað við það sem oft gengur og gerist í henni en hún á sum árin sterka opnun og heldur dampi og stígandi veiði í kjölfarið á því. Hún var heldur sein í gang núna en miðað við fréttir úr ánni hefur veiðin glæðst heldur betur síðustu daga.

Síðasta vika í Laxá í Kjós gaf 137 laxa en veitt er á 8 stangir í ánni. Bugða hefur verið að koma ágætlega inn og eins hefur laxinn verið að ganga betur upp á efri svæðin en hann gerði í fyrstu. Má þar líklega finna skýringu í lágum vatnshita sem, eins og víða, heldur laxinum neðarlega í ánum í hlýrra vatni. Fleiri ár hafa fundið fyrir þessum skilyrðum þar sem lágur vatnshiti stoppar laxinn í göngu en sem dæmi hefur veiðin í Kjarrá verið afar dræm suma daga þegar áin er köld. Sömu sögu má segja um Langá en mikil veiði í ánni síðustu daga er öll á veiðistöðum neðan við laxastigann við Sveðjufoss en laxinn þarf að fara í gegnum hann á leið sinni upp á Fjall.

Veðurspáin næstu 10 daga boðar engin sérstök hlýindi svo líklega verður eitthvað áframhald á því að laxinn komi sér fyrir á efstu veiðisvæðum ánna en það er þá bara meiri veiði fyrir vikið á neðri svæðunum.






×