Veiði

Síðustu dagarnir í vatnaveiðinni framundan

Karl Lúðvíksson skrifar
Arnar Tómas með flotta veiði úr Þingvallavatni.
Arnar Tómas með flotta veiði úr Þingvallavatni.
Vatnaveiðin hefur verið mjög góð víða í sumar þó svo að kalt veður hafi víða komið vötnunum seint í gang.

Veiðin á láglendisvötnum hefur oft á tíðum verið mjög góð og þau vötn sem hafa til að mynda gefið frábæra veiði í sumar er t.d. Þingvallavatn, Hítarvatn, Sauðlauksvatn, Úlfljótsvatn, Hópið, Hraunsfjörður og Laugarvatn bara svo nokkur séu nefnd. Auðvitað eru veiðimenn misveiðnir og þekkja vötnin misvel en þessi fyrrnefndu hafa verið nefnd oftar sem þau vötn þar sem aflabrögð hafa verið best.

Þingvallavatn og Elliðavatn eru þau vötn sem eru mest stunduð en fyrst við nefnum Elliðavatn þá var það mjög skrítið í sumar. Frá opnun fram í lok maí veiddist afskaplega vel suma daga í vatninu þrátt fyrir kulda en það var eins og það hefði verið slökkt á veiðinni í byrjun júní og hún komst aldrei almennilega í gang aftur þrátt fyrir að einn og einn veiðimaður hefði átt ágætan dag í vatninu.

Veiðitímanum í vötnunum líkur á misjöfnum dagsetningum en þau vötn þar sem sjóbirting er að finna eru stundum opin lengur en gengur og gerist. Þingvallavatn sem dæmi lokar fyrir veiði 15. september og þar veiðist ennþá ágætlega þrátt fyrir að bleikjan sé að gera sig klára til að hrygna. Hún gengur á þessum tíma afar nálægt landi og má sjá hana auðveldlega frá bakkanum í sínum hrygningardansi. Hún tekur ekki vel en það má þó stundum finna fiska sem eru til í að taka flugurnar. Arnar Tómas átti góðan dag þar nýlega eins og sést á meðfylgjandi myndum og landaði hann nokkrum flottum bleikjum og sleppti nokkrum til viðbótar.

Það má í sömu andrá nefna að þeir sem eiga leið um Þjóðgarðinn á haustinn ættu klárlega að kíkja á Breiðuna neðan við litlu fossa í Öxará og sjá stóru urriðana sem þessa dagana ganga upp í ánna til að hrygna. Nú þegar eru nokkrir farnir að taka sér stöður og við erum ekki að tala um neina smáfiska. Þeir sem vilja skoða urriðana er einnig bent á að fara aldrei svo nærri að fiskurinn styggist og virða þau mörk sem landverðir hafa sett upp við ánna.






×