"Nei, ekki strax en við tókum stórt skref í áttina að honum í kvöld," svaraði Fanndís Friðriksdóttir þegar blaðamaður Vísis spurði hana hvort ekki væri óhætt að óska Breiðabliki til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn eftir 0-1 sigur á Stjörnunni í kvöld.
Sigurinn var gríðarlega mikilvægur en Blikar eru nú sjö stigum á undan Garðbæingum þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni. Það þarf því ansi margt að ganga á ef Breiðablik verður ekki meistari.
"Það er frábært að þurfa bara að skora eitt, því við höldum alltaf hreinu. Þetta var frábært," sagði Fanndís sem skoraði eina mark leiksins á 49. mínútu. Það dugði til sigurs því Breiðablik hélt hreinu í 11. leiknum í röð í kvöld. En var þetta sanngjarn sigur að mati Fanndísar?
"Já, mér fannst það. Við áttum opnari færi, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við hefðum kannski átt að gera betur í seinni hálfleik og keyra yfir þær en féllum óvenju langt aftur á völlinn," sagði Fanndís sem leið vel þrátt fyrir að staðan væri bara 0-1.
"Það getur alltaf dottið inn mark en samt fannst mér þær ekki líklegar til að skora."
Kópavogsbúar fjölmenntu á Samsung-völlinn í kvöld og höfðu hátt. Fanndís var að vonum ánægð með stuðninginn sem Blikar fengu í kvöld frá stuðningsmannasveitinni Kópacabana.
"Þeir eru frábærir. Þetta er ekki í fyrsta skipti í sumar sem þeir eru svona og þetta hjálpaði mikið til í kvöld," sagði Fanndís að endingu.
Fanndís: Frábært að þurfa bara eitt mark
Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar

Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti





Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti


Belgar kveðja EM með sigri
Fótbolti

