Ingvar Þór Kale átti nokkuð undarlegan leik í marki Vals gegn KR í gær. Leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli en Almarr Ormarsson tryggði KR stig með marki í uppbótartíma.
„Hann var bæði frábær í leiknum og mjög furðulegur,“ sagði Hjörvar Hafliðason um Ingvar í Pepsi-mörkunum í gær.
„Hann varði t.d. tvisvar mjög vel en svo var hann alltaf að tefja og eitthvað að fíflast.“
Ingvar gerði sig líka nokkrum sinnum sekan um leikaraskap í leiknum.
„Hérna er ekkert komið við hann og hann lá í lengri tíma,“ sagði Hjörvar og vísaði til atviksins þegar Ingvar lá í grasinu eftir að Aron Bjarki Jósepsson rétt kom við hann. Markvörðurinn gerði einnig mikið lítilli, ef einhverri, snertingu Þorsteins Más Ragnarssonar seinna í leiknum.
„Þessi vitleysa hélt áfram. Þorsteinn kom ekki við hann þarna en samt lá hann í góðan tíma. Ég hef náttúrulega dálítið gaman að þessu,“ bætti Hjörvar við en umræðuna um Ingvar má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
