Það voru þeir Henrik Stenson og Rickie Fowler sem börðust um sigurinn á lokahringnum á Deutsche Bank meistaramótinu sem kláraðist í kvöld en sá síðarnefndi hafði sigur eftir æsispennandi lokaholur.
Fyrir hringinn leiddi Stenson með einu höggi á Fowler en hann hélt því forskoti þangað til á 16. holu á hringnum í kvöld þegar að Stenson sló upphafshögg sitt ofan í vatnstorfæru og fékk í kjölfarið tvöfaldan skolla.
Fowler tók þá forystuna og fékk síðan par á síðustu tvær holurnar til þess að sigra en þetta er annar sigur þessa vinsæla kylfings á árinu eftir að hafa borið sigur úr býtum á Players meistaramótinu í vor.
Hann lék hringina fjóra á TPC Boston vellinum á samtals 15 höggum undir pari, einu betur en Stenson á 14 undir og fjórum á undan Charley Hoffman sem endaði í þriðja sæti á 11 undir pari.
Fyrir sigurinn fékk Fowler rúmlega 180 milljónir króna í verðlaunafé ásamt því að hann skaust upp í þriðja sæti stigalista FedEx-úrslitakeppninar þegar aðeins tvö mót eru eftir.

