Axel Bóasson, kylfingur úr Golfklúbbnum Keili, náði ekki að fylgja eftir frábærum fyrri níu holum dagsins á þriðja hring fyrsta stigs úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Axel lék fyrri níu á fimm höggum undir pari en seinni níu á sex höggum yfir pari.
Strákarnir þurftu heldur betur að spýta í lófana ef þeir ætluðu sér að komast á næsta stig úrtökumótsins en aðeins efstu 22 kylfingarnir komast á næsta stig. Axel var fyrir þriðja leikdag í 51. sæti á þremur höggum yfir pari, 13 sætum fyrir ofan Þórð.
Axel fékk fugl strax á fyrstu holu í dag og fylgdi því eftir með erni á 6. holu, 303 metra par 4 holu. Hann krækti í annan örn á 9. holu, 516 metra par 5 holu og lauk fyrri níu holum dagsins á fimm höggum undir pari.
Hann átti hinsvegar slakar seinni níu en hann fékk tvo skolla og einn tvöfaldan skolla á holum 10-12. og var skyndilega aðeins á einu höggi undir pari. Hann nældi í fimm pör í röð en endaði hringinn á tvöföldum skolla og lauk leik á einu höggi yfir pari.
Þórður lék sömuleiðis mun betur á fyrri níu holum dagsins en hann hefur áður gert á þessu móti. Krækti hann í þrjá fugla, fimm pör og einn skolla á fyrri níu en lenti líkt og Axel í töluverðum vandræðum á seinni níu.
Fékk hann þrjá skolla á seinni níu holum dagsins og sex pör og lauk leik á einu höggi yfir pari.
Axel er í 55. sæti þegar einn hringur er eftir á mótinu á þremur höggum yfir pari en Þórður er átta sætum neðar í 63. sæti á sex höggum yfir pari.
Axel náði ekki að fylgja eftir frábærri byrjun

Tengdar fréttir

Axel og Þórður í erfiðri stöðu í Þýskalandi
Axel Bóasson og Þórður Rafn Gissurarson eru í erfiðri stöðu eftir tvo daga á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina sem fer fram á Fleesensee vellinum í Þýskalandi.

Þórður og Axel hefja leik í dag á úrtökumóti Evrópumótaraðarinnar
Þórður Rafn Gissurarson, Íslandsmeistari í golfi 2015 úr GR, og Axel Bóasson, Íslandsmeistari í holukeppni 2015 úr GKG, hefja leik í dag í Þýskalandi á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina.

Axel og Þórður náðu sér ekki á strik á fyrsta degi
Kylfingarnir hófu leik á fyrsta degi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina en þeir léku báðir yfir pari. Axel er tveimur höggum frá sæti á næsta stigi mótsins en Þórður er fimm höggum fyrir annan hringinn.