„Að fullmynda Menningarfélag Akureyrar var ákveðið sameiningarferli í tvö ár en það var svo undirritað fyrir um ári. Menningarfélagið tók svo formlega til starfa þann 1. janúar síðastliðinn. Þannig að við erum í raun algjörlega ný af nálinni og erum í fyrsta skipti að skipuleggja heilan vetur með þrjú menningarsvið undir einum hatti. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Leikfélag Akureyrar og viðburðasvið Hofs mynda þessi þrjú svið Menningarfélagsins og þarna er á ferðinni mikil og kröftug starfsemi.
En þegar við byrjuðum að vinna um áramótin þá vorum við auðvitað að erfa dagskrá sem var fullunnin. Við notuðum tækifærið til þess að læra inn á hvernig þessar þrjár lista- og menningarstofnanir virka og vinnum svo okkar dagskrá út frá því og út frá þeirri reynslu sem var til staðar. Það er dagskráin sem við kynntum núna nýverið og þar kennir svo sannarlega margra og ólíkra grasa svo vonandi munu allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og vel það.

Gunnar segir að þessi nálgun, að færa sviðin svona saman, sé að koma vel út en að grunnurinn að starfinu sé auðvitað í höndunum á þeim sem sækja viðburðina. „Við erum svo heppin að þetta samfélag hérna er ákaflega duglegt að mæta. Við höfum lagt vel í og verið með mikið af viðburðum og fólk virðist einfaldlega hafa gríðarlegan áhuga á listum og menningu hérna á Akureyri, þannig að það hefur gengið mjög vel. Auðvitað eru ýmsir snertifletir sem við þurfum að hreinsa og finna bestu leiðina að en við lítum fyrst og fremst á það sem tækifæri. Núna hefur leiklistarsviðið t.d. aðgang að 500 manna sal í Hofi í staðinn fyrir aðeins 200 manna salinn í gamla samkomuhúsinu og það þýðir að það er hægt að gera stærri sýningar.

En það á margt skemmtilegt eftir að koma fyrir augu og eyru fólks hér fyrir norðan áður en kemur að þessari sýningu. Þar má nefna að á föstudaginn verður frumsýning á Býr Íslendingur hér hjá Leikfélagi Akureyrar og í október standa fyrir dyrum magnaðir stórtónleikar hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Dimmu og svo mætti áfram telja. Stóra málið er að við viljum gera vel við okkar fólk vegna þess að það er duglegt að mæta og þannig getur starfsemin haldið áfram að vaxa og dafna.“