Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr GKG, náði sér ekki á strik á öðrum degi Kasakstan Open mótsins sem er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Birgir Leifur lék á fimm höggum yfir pari á öðrum degi og missti fyrir vikið af niðurskurðinum.
Birgir Leifur lék stöðugt golf í gær, fékk aðeins tvo skolla og fjóra fugla og deildi 24. sæti eftir fyrsta keppnisdag. Á fyrri níu holum dagsins krækti hann í einn fugl og tvo skolla og kom inn á einu höggi pari en hann náði aldrei flugi í dag.
Lék hann seinni níu holur dagsins á fjórum höggum yfir pari en hann fékk fjóra skolla og fimm pör á seinni níu holunum og lauk leik á fimm höggum yfir pari á deginum og alls þremur höggum yfir pari en til þess að komast í gegn um niðurskurðinn þurftu kylfingarnir að leika á pari.
Birgir Leifur missti af niðurskurðinum í Kasakstan
Kristinn Páll Teitsson skrifar
