Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: FH-ingar í sjöunda himni | Myndbönd

FH-ingar eru vel að Íslandsmeistaratitlinum komnir.
FH-ingar eru vel að Íslandsmeistaratitlinum komnir. vísir/þórdís
Tuttugasta og fyrsta umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu fór fram í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttu nótunum.

FH tryggði sér sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil með 2-1 sigri á Fjölni. KR staðfesti Evrópusætið og sendi Leikni í leiðinni niður um deild. Blikar geirnegldu annað sætið með sigri á Eyjamönnum sem eru hólpnir. Hermann Hreiðarsson lét reka sig út af í annað sinn á tímabilinu þegar Fylkir og Víkingur gerðu markalaust jafntefli og Skagamenn héldu hreinu í fjórða leiknum í röð þegar þeir unnu 1-0 sigur á Val. Og Stjörnumenn niðurlægðu Keflvíkinga á Samsung-vellinum.

Umfjöllun og viðtöl úr leikjum umferðarinnar:

FH 2-1 Fjölnir

Leiknir 0-2 KR

Stjarnan 7-0 Keflavík

Breiðablik 1-0 ÍBV

Víkingur 0-0 Fylkir

ÍA 1-0 Valur


Ármann Smári og félagar í vörn ÍA hafa haldið hreinu í fjórum leikjum í röð.vísir/vilhelm
Góð umferð fyrir ...

... FH-inga

Auðvelt val. Fimleikafélagið er Íslandsmeistari í sjöunda sinn en allir þessir sjö titlar hafa unnist á síðustu 12 árum. Það var mikil pressa á FH-ingum fyrir mót og þeir þurftu að hafa mikið fyrir því að landa þessum titli en það tókst á endanum. Eftir 1-3 tapið fyrir KR í 12. umferð hafa FH-ingar verið óstöðvandi og unnið átta af síðustu níu leikjum sínum. Þeir eru vel að þessum titli komnir.

... vörn ÍA

Skagamenn héldu hreinu í fjórða leiknum í röð þegar þeir unnu 1-0 sigur á Val í miklum rokleik á Skaganum. Akurnesingar hafa verið vaxandi í allt sumar og geta vel við unað enda búnir að tryggja sér áframhaldandi sæti í efstu deild. Ármann Smári Björnsson hefur átt sitt besta tímabil í langan tíma og bundið Skagavörnina saman og fyrir aftan hana hefur Árni Snær Ólafsson átt gott sumar.

... Guðjón Baldvinsson

Guðjón skoraði sína aðra þrennu í efstu deild þegar Stjörnumenn kjöldrógu fallna Keflvíkinga á Samsung-vellinum. Guðjón var lengi í gang eftir að hann kom frá Nordsjælland um mitt sumar en hefur verið að hitna að undanförnu og er kominn með fimm mörk í síðustu fjórum leikjum Stjörnunnar sem hefur fengið 10 stig úr þessum fjórum leikjum og haldið þrisvar sinnum hreinu í röð. Sumarið er vonbrigði en Stjörnumenn geta farið nokkuð brattir inn í undirbúningstímabilið eftir góðan endasprett.

Keflvíkingar hafa fengið á sig 59 mörk í sumar.vísir/anton
Vond umferð ...

... vörn og markmann Keflavíkur

Keflavík fékk á sig sjö mörk gegn Stjörnunni og jafnaði um leið vafasamt met Víkinga frá 1993 en engin lið hafa fengið á sig fleiri mörk á einu tímabili en þau, eða 59 mörk. Keflavík hefur aldrei haldið hreinu í sumar og tvívegis fengið á sig sjö mörk í leik. Haukur Ingi Guðnason og Jóhann B. Guðmundsson ákváðu að setja Sigmar Inga Sigurðarson í markið gegn Stjörnunni en sú ákvörðun var gagnrýnd í Pepsi-mörkunum í gær. Sigmari var vorkunn að standa fyrir aftan þessa vörn en hann leit samt sem áður illa út í nokkrum mörkum Stjörnunnar, þá sérstaklega fimmta markinu.

... Leiknismenn

Stuttri dvöl Leiknismanna í deild þeirra bestu er lokið. Breiðhyltingum hefur verið hrósað fyrir baráttugleði og samstöðu en þegar upp var staðið vantaði meiri gæði í liðið, sérstaklega fram á við. Leiknir hefur aðeins skorað 18 mörk í 21 deildarleik og mennirnir sem voru fengnir til að skora mörkin, Elvar Páll Sigurðsson, Kolbeinn Kárason og Danny Schreurs, hafa aðeins skilað einu marki samtals í sumar. Varnarleikurinn var lengst af fínn en hann hefur lekið í síðustu leikjum.

... Hermann Hreiðarsson

Eyjamaðurinn er búinn að stýra Fylki í 10 leikjum en í þeim hefur hann tvisvar verið rekinn af velli. Framkoma hans í leiknum gegn Val fyrir nokkrum vikum var til skammar og hann missti aftur stjórn skapi sínu í Víkinni í gær. Hermann fékk orð í eyra frá sérfræðingum Pepsi-markanna og það er ljóst að hann þarf að hafa meiri stjórn á skapi sínu. Óvíst er hvort Hermann verður þjálfari liðsins á næsta tímabili en ef svo verður, þá hefur Árbæjarliðið ekki efni á hafa hann reglulega uppi í stúku.

Guðjón er kominn með fimm mörk í síðustu fjórum leikjum Stjörnunnar.vísir/anton
Skemmtilegir punktar af Boltavaktinni:

Árni Jóhannson á Samsung-vellinum:


Já, Stjarnan er komin með 2 mörk í forskot. Guðjón Baldvinsson fékk boltann í teig Keflvíkinga af varnarmanni og smellti honum í hornið anni að markvörðurinn náði ekki til. Hversu mörg verð mörkin í dag? Ég þori ekki að spá um það en þau verða líklega öll Stjörnumegin.

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Leiknisvelli:

Aðstæður hér á Leiknisvellinum eru áhugaverðar. Byrjum á því jákvæða. Sólin er að glenna sig og grasið lítur afskaplega vel út. Þá hið neikvæða. Grasið er á floti vegna slagveðursrigningar og það er hávaðarok.

Tryggvi Páll Tryggvason á Víkingsvelli:

Hermann Hreiðarsson er alveg vitlaus hérna á hliðarlínunni og lætur aðstoðardómarann heyra það.

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Guðjón Baldvinsson, Stjarnan - 9

Sigmar Ingi Sigurðarson, Keflavík - 2

Umræðan #pepsi365

Mark 21. umferðar Atvik 21. umferðar Markasyrpa 21. umferðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×