Menning

Ævintýrin í hversdagsleikanum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dagbjört Drífa Thorlacius.
Dagbjört Drífa Thorlacius. vísir
Myndlistarmaðurinn Dagbjört Drífa Thorlacius opnar sína fyrstu, stóru einkasýningu í Gallerí Gróttu, Seltjarnarnesi fimmtudaginn 24. september kl. 17.

Lífsglíma mannsins hverju sinni markar hann og gerir hann að því sem hann er í öllum sínum margbreytileika. Verkin á sýningu Dagbjartar Drífu Thorlacius varpa ljósi á samferðamenn hennar í tímans rás. Ekki er um eiginlegar persónur að ræða heldur vinnur listamaðurinn úr samansöfnuðu minni sínu myndir af fólki sem hefur orðið á vegi hennar í gegnum lífið. Í verkin fléttast utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif á okkar daglega líf eins og tilfinningar, náttúra, litir og tíðarandi.

Hvert verk býr yfir eigin sögu sem myndlistarmaðurinn skráir á tvívíðan flötinn. Sagnabrot koma úr ólíkum áttum líkt og mannverurnar á myndunum en tengjast saman í nýja frásögn með hversdagslegum og ljóðrænum undirtóni.

Verk Dagbjartar Drífu eru flest unnin á síðastliðnum fjórum árum með olíulitum á striga og pappaspjöld.

Dagbjört Drífa Thorlacius (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA próf í myndlist árið 2004 og með diplómagráðu í listkennslufræðum frá sama skóla árið 2006. Hún nam ljósmyndun við Københavns Tekniske skole og hagnýta menningarmiðlun við Háskóla Íslands árið 2013.

Dagbjört Drífa hefur sýnt víða bæði ein og í samvinnu við aðra, komið að ýmsum listtengdum samstarfsverkefnum við erlenda aðila og staðið að útgáfu bókverka. Sýningin stendur til 9. október. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×