Íslenski boltinn

Bergsveinn: FH heillaði meira en KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bergsveinn með Jón Rúnari Halldórssyni formanni.
Bergsveinn með Jón Rúnari Halldórssyni formanni. Vísir/Stefán
Bergsveinn Ólafsson, miðvörður Fjölnis í Pepsi-deild karla, skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Íslandsmeistara FH. Hann hefur spilað með Fjölni allan sinn feril og átt stóran þátt í uppbyggingu liðsins undanfarin ár.

"Það var gríðarlega erfitt að yfirgefa Fjölni, ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni. Ég er mikill Fjölnismaður með Fjölnishjarta. Þetta tók gríðarlega á mig," sagði Bergsveinn við Vísi eftir undirskriftina í Krikanum í dag.

Bergsveinn sagðist hafa verið fastur í sama farinu undanfarin ár og vantaði stærri áskorun. Þær gerast ekki stærri hér heima en að fara til FH.

"Það heillaði mig að fara út úr þægindarammanum sem ég var kominn í og mæta í FH þar sem maður þarf að vera góður á hverri æfingu," sagði Bergsveinn.

"Það var tímapunktur í lífi mínu að skipta um lið núna. Það verður gaman að takast á við nýja áskorun. Ég reyndi ekki að hugsa mikið um þetta undir lok tímabilsins en eftir tímabilið fannst mér ég þurfa að breyta til. Ég hef verið í sama farinu í nokkuð langan tíma. Ég tel mig getað þróað minn leik hjá FH og það heillaði mig."

FH var ekki eina liðið sem sóttist eftir kröftum Bergsveins: "Það kom eitt annað lið upp fyrir utan FH. Það lið heillaði líka en ég ákvað að semja við FH og ég stend við þá ákvörðun," sagði Bergsveinn, en það var KR sem vildi fá miðvörðinn.

"Þetta var gífurlega erfið ákvörðun en á endanum heillaði FH meira. KR er líka topp klúbbur sem heillaði."

En hvað er það sem heillar svona við FH? "Það eru margir hlutir. Aðstaðan er frábær og þjálfarinn. Markmið klúbbins í heild sinni. líka Þetta er heillandi félag og það besta á Íslandi," sagði Bergsveinn.

Bergsveinn var að renna út á samningi og fær Fjölnir því ekkert fyrir hann frá FH-ingum.

"Að sjálfsögðu vildi ég að Fjölnir fengi pening fyrir mig. Þetta er erfitt og þó það hljómi grunsamlega þá elska í Fjölni og einn daginn mun ég snúa aftur í Fjölni. Það er samt sárt að þeir fái ekkert fyrir mig," sagði Bergsveinn Ólafsson.


Tengdar fréttir

Bergsveinn á leið til FH

FH-ingar hafa boðað til blaðamannafundar í Kaplakrika í dag vegna leikmannamála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×