Íslenski boltinn

Guðjón Pétur á förum: Fékk ekki fullt traust þjálfarans

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Pétur fagnar marki með Blikum í sumar.
Guðjón Pétur fagnar marki með Blikum í sumar. Vísir
Guðjón Pétur Lýðsson reiknar síður með því að hann verði áfram í herbúðum Breiðabliks, þó svo að hann segist ekki útiloka neitt.

Guðjón Pétur var í lykilhlutverki hjá Breiðabliki framan af móti en missti sæti sitt í byrjunarliðinu í síðustu umferðunum.

„Það er erfitt að segja hvað gerist en líklega verð ég ekki áfram hjá Breiðabliki. Ég hafnaði því fyrr í sumar en þá slitnaði upp úr samningaviðræðum okkar á milli,“ segir Guðjón Pétur í samtali við Vísi.

„Ég er þó að skoða mín mál og getur vel verið að ég verði áfram. Ég útiloka ekki neitt.“

Hann segir að efst á lista hjá sér sé að komast að í atvinnumennsku. „Það hafa alltaf verið lið úti sem hafa sýnt manni áhuga en það er best að segja sem minnst um það á þessu stigi málsins. Þetta kemur bara í ljós.“

„En ef ekkert verður af því þá heyrir maður í liðunum hér heima,“ segir Guðjón Pétur sem segir að nú þegar hafi nokkur lið sett sig í samband við hann. Hann vill þó ekkert gefa nánar út á það. „Það er alveg ljóst að ef ég spila á Íslandi þá verður það með toppliði.“

Hann var ekki ánægður með þau hlutskipti sem hann fékk hjá Breiðabliki. „Ég var ósáttur við mína stöðu en átti hins vegar frábært tímabil. Ég kom að sautján mörkum sem það næstmesta af öllum leikmönnum deildarinnar,“ segir hann.

„Ég átti frábært tímabil, þrátt fyrir að spila ekki mína stöðu og fá ekki fullt traust hjá þjálfaranum,“ bætir Guðjón Pétur við.

Guðjón Pétur hóf meistaraflokksferil sinn hjá Haukum en hefur einnig leikið með Stjörnunni, Haukum, Val og Álftanesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×