Íslenski boltinn

Gunnleifur: Líklega mitt besta tímabil

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, fékk aðeins þrettán mörk á sig í allt sumar og bætti þar með met í efstu deild. Blikar héldu hreinu í alls tólf leikjum í sumar en þeir kláruðu tímabilið með 2-0 sigri á Fjölni í dag.

„Ég er virkilega stoltur af þessu. Það er auðvitað ekkert gaman að þurfa að sætta sig við silfrið en árangurinn hjá okkur er samt frábær. Við töpum tveimur keppnisleikjum í sumar fyrir utan bikarinn þar sem við töpuðum í framlengingu. Varnarleikur alls liðsins hefur verið til fyrirmyndar,“ sagði Gunnleifur sem er strax byrjaður að hugsa um næsta tímabil.

„Við ætlum okkur meira. Það er ekki nokkur spurning. Við þurfum því að spýta aðeins í fyrir næsta sumar,“ sagði hann.

Gunnleifur segir að hann hafi snemma gert sér grein fyrir því að hann væri með sterka vörn fyrir framan sig.

„Þegar þjálfararnir tóku við var varnarleikurinn tekinn föstum höndum og mikill metnaður settur í starfið. Það smitaði út frá sér. Menn lögðu mikla vinnu á sig og æfingarnar voru eftir því. Þegar allir fylgja með þá skilar það oftast góðum úrslitum.“

Gunnleifur fékk aðeins þrettán mörk á sig í allt sumar og segist hann afar stoltur af því. Það er met í tólf liða efstu deild.

„Ég er mjög stoltur þó ég segi sjálfur frá. Ég er ánægður með mitt tímabil. Ég gæti trúað því að það væri mitt besta, að minnsta kosti tölfræðilega. Ég er stoltur af mér og ánægður með strákana alla.“

Hann segist ekkert hafa verið að hugsa um að bæta upp fyrir sumarið í fyrra, sem gekk ekki jafn vel og í ár. „Ég vildi bara bæta mig og gera betur. Það var það eina sem ég hugsaði um og mér tókst það.“

Gunnleifur, sem varð fertugur í sumar, grínast enn með að hann stefni út í atvinnumennsku en líklegt er að hann missi lykilmenn úr sinni varnarlínu í sterkari deildir.

„Ég hef ekki áhyggjur af því ef varnarlínan breytist. Eðlilega eru lið að kíkja á strákana okkar og sjálfsagt breytist hún - kannski til hins betra, hver veit?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×