Handbolti

Eyjakonur áfram með fullt hús stiga | Stefanía frábær í öruggum sigri Stjörnunnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Stjarnan hefur byrjað tímabilið af krafti.
Stjarnan hefur byrjað tímabilið af krafti. Vísir/anton
Stefanía Theodórsdóttir fór á kostum í öruggum 31-17 sigri Stjörnunnar á HK í 5. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld.

Stjörnukonur gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 16-7, Stjörnunni í hag. Bættu þær við forskot sitt eftir því sem leið á seinni hálfleik og unnu þær að lokum öruggan sigur.

Stefanía var atkvæðamest í liði Stjörnunnar með átta mörk en Arna Dýrfjörð bætti við fimm mörkum. Í liði gestanna var Emma Havin Sardarsdóttir markahæst með fimm mörk en Kolbrún Arna Garðarsdóttir og Þórhildur Braga Þórðardóttir bættu við þremur mörkum hvor.        

Eyjakonur eru áfram með fullt hús stiga eftir öruggan sigur á FH í Kaplakrika en ÍBV leiddi með tíu mörkum í hálfleik.

ÍBV náði forskotinu strax í upphafi og leiddi 17-7 í hálfleik. Eyjakonur hleyptu FH-ingum aldrei nálægt sér í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan 10 marka sigur, 31-21.

Heiðdís Rún Guðmundsdóttir var atkvæðamest í liði FH með níu mörk en í liði ÍBV voru það Vera Lopes með átta mörk og Telma Amado með sjö.

Þá unnu Valskonur annan leik sinn í röð í 27-16 sigri á KA/Þór á Akureyri í kvöld. Valskonur leiddu með sjö mörkum í hálfleik í stöðunni 7-14 og unnu að lokum öruggan sigur.

Var þetta annar sigur Valskvenna í röð eftir tap gegn Stjörnunni í þriðju umferð en Þór/KA hefur nú tapað fjórum leikjum í röð eftir að hafa náð jafntefli gegn FH í fyrstu umferð.

Kristín Guðmundsdóttir var markahæst í liði Vals með sex mörk en Sigurlaug Rúnarsdóttir bætti við fimm mörkum. Í liði Norðankvenna var það Anna Kristín Einarsdóttir sem var atkvæðamest með fimm mörk en Birta Fönn Sveinsdóttir bætti við fjórum mörkum fyrir Þór/KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×