Það verk sem metið er verðmætast að þessu sinni er eftir Ásgrím Jónsson og er það metið á 2,5 til 3 milljónir. Jóhann Ágúst segir að athygli hafi vakið, á síðasta uppboði, að dýrasta verkið keyptu erlendir ferðamenn. „Parið hafði sótt sýningu á Kjarvalsstöðum fyrr um daginn og hrifist af gamla meistaranum. Starfsfólk safnsins benti þeim á að hugsanlega væru einhver verk til sölu í Gallerí Fold. Rétt áður en uppboðið hófst duttu þau inn og fengu að skoða verkin sem átti að fara að bjóða upp og féllu fyrir stóru Kjarvalsverki. Þau sátu svo allt uppboðið og buðu í verkið með hjálp starfsmanns Gallerís Foldar og hrepptu hnossið.“

„Af verkum gömlu meistaranna kennir ýmissa grasa,“ segir Jóhann. „Alls verða fimm verk eftir Kjarval boðin upp, landslagsverk en einnig fullveldisplatti frá 1918. Þrjú verk eftir Gunnlaug Blöndal, hafnarmynd frá Reykjavík, módelmynd og portrett. Tvær olíumyndir verða boðnar upp eftir Jón Stefánsson, sjálfsmynd og Esjumynd. Ennfremur verk eftir Þórarin B. Þorláksson, málað í Hvammssveit. Elsta verkið á uppboðinu er verkið Frá Hvammi í Hvammssveit eftir Þórarinn B. Þorláksson frá 1904.“