Rakarinn frá Sevilla hefur notið vinsælda og velgengni í tæp 200 ár allt frá frumflutningi árið 1816 og Oddur segist vissulega vona að það verði nú ekki lát á þessum vinsældum nú þegar hann stígur á svið á laugardagskvöldið í hlutverki rakarans geðþekka.
„Í grunninn er þetta einföld ástarsaga. Greifinn Almaviva fellur fyrir Rosinu og þráir ekkert heitar en að ná ástum hennar. En Rosina býr hjá verndara sínum Bartolo og hann ætlar að giftast henni á þessum degi sem óperan gerist á. Þannig að greifinn fær rakarann ráðagóða til liðs við sig til þess að bjarga málum og þeir þurfa að hafa hraðar hendur ef ekki á illa að fara. Rakarinn er svona gaur sem þarf að bjarga öllu, hann er algjör vængmaður eins og sagt er, enda með það eina markmið að koma greifanum og Rosinu saman.“

En svo erum líka með alveg fádæma skemmtilegan hóp á sviðinu og það skiptir líka miklu máli. Það er afskaplega skemmtilegt að vinna með Gissuri Páli Gissurarsyni sem fer með hlutverk greifans. Gissur er svona gaur sem er bara ógeðslega fyndinn og skemmtilegur og við erum saman í búningsklefa og alltaf saman á sviðinu líka þannig að við erum bara brosandi hringinn allan liðlangan daginn.“
Oddur segir að þrátt fyrir öll þessi skemmtilegheit þá sé það ekkert endilega léttara verkefni að takast á við hlutverk á borð við rakarann en dramatískari hlutverk. „Mér finnst rosa gott að syngja dramatísk hlutverk og taka dramatíkina út þar. Það er reyndar mjög erfitt að syngja hlutverk rakarans, maður má kannski ekki segja svona, en þetta liggur mjög hátt svo þetta er ekkert sem maður gerir bara með vinstri. Núna í frumsýningarvikunni þarf maður aðeins að passa sig og svo fær maður frí á föstudagskvöldið til þess að vera vel hvíldur og ferskur á laugardagskvöldið.“