Veiði

Hjónahollunum fjölgar í veiðinni

Karl Lúiðvíksson skrifar
Mynd: Garðar Stefánsson
Það er fátt skemmtilegra en að sameina fjölskylduna í veiði þar sem holl útivera fer saman við smá veiðiskap.

Það var áberandi í sumar hvað hjónahollum hefur fjölgað hægt og rólega og það virðist stefna í enn frekari aukningu á næsta ári. Það er sífellt að fjölga bókunum í veiðiárnar þar sem samhenntir hópar vinafólks taka sig til og taka heilu hollin fyrir hópinn. Bókunum hefur fjölgað bæði í ánum þar sem er veitt full þjónusta en líka í þeim ám þar sem veiðimenn sjá um sig sjálfir.

Samhliða þessu er einnig mikil fjölgun í kvennahollum sem hafa verið meira og meira áberandi síðustu ár og hafa sprottið upp hópar., t.d. í SVFR þar sem öflug kvennadeild er starfsrækt, þar sem konur sem oft þekkjast lítið eða ekkert fara saman í veiði. Samkvæmt veiðileyfasölum gengur mjög vel að bóka næsta sumar og er svo komið að um fáa daga er að ræða á góðum tíma sem eru ennþá óbókaðir.

Við ætlum að deila með ykkur einni veiðisögu frá hjónum sem fóru saman í veiðiferð í sumar þar sem frúin gerði sér lítið fyrir og landaði fyrsta laxinum sínum.

"Áttum æðislegan dag við Langá í september. Veðrið var eins og best verður á kosið miðað við árstíma. Það var gríðarlega mikill fiskur í Langá eins og oft á þessum tíma en stundum þarf að hafa fyrir honum á haustin, en ekki í þessari ferð. Við settum í 17 laxa og lönduðum við 11. Það kalla ég dag ! og með konuna mína í sinni fyrstu laxveiðiferð. Gaman að segja frá því að Haugur 16# gaf vel. Hún hafði fyrr um sumarið veitt með mér bleikjur og urriða á Skagaheiði. En þarna var farið í hennar fyrsta laxveiðitúr og nú er ekki aftur snúið.

Það má því segja að þetta hafi verið lán í óláni þar sem að nú mun hún kalla eftir því að koma með í allar veiðiferðir. Held að það myndi nú ekki alveg kæta veiðifélaga mína eins mikið. En samt sem áður sé ég ljósann punkt í þessu. Ég mun geta farið oftar að veiða. Það eru föstu veiðiferðirnar með veiðfélögum og svo koma hjónaferðir aukalega. Ekki get ég kvartað. Frábær ferð, mikil veiði og tel ég Langá hafa sýnt okkur sínar allra fallegustu hliðar þennan september dag. Á meðfylgjandi mynd er fallega konan mín með maríulaxinn sinn sem hún fékk í neðri Campari (82).Fallegur hængur sem lét hafa fyrir sér".






×