Markvörðurinn Þórður Ingason skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Fjölni en samningur hans rann út í haust.
Þórður staðfesti þetta við Fotbolti.net í kvöld en mörg lið í Pepsi-deildinni höfðu samband við Þórð og höfðu áhuga á að fá hann til liðs við sig.
Þórður hefur leikið með Fjölni undanfarin þrjú ár en hann lék ekki með liðinu í lokaumferðunum á þessu tímabili eftir að hafa verið settur í agabann eftir að hann mætti á æfingu undir áhrifum áfengis.
Þórður fór í kjölfarið á því í meðferð en hann ræddi fíkn sína í viðtali við Fotbolti.net á dögunum en þar sagðist hann meðal annars ætla að einbeita sér betur að fótboltanum á næsta tímabili.

