Suður-Afríkumaðurinn Branden Grace lék frábært golf á fyrsta hring á HSBC Meistaramótinu sem fram fer á Sheshan International vellinum í Kína en hann kom inn á 63 höggum eða níu undir pari.
Grace lék gallalgaust golf og fékk níu fugla og níu pör á hringnum en þrír kylfingar deila öðru sætinu á átta höggum undir pari.
Skor þátttakenda var mjög gott á fyrsta hring og flestir undir pari enda aðstæður í Kína mjög góðar til þess að skora vel, flatirnar mjúkar og veðrið milt.
Þar má nefna að Bubba Watson, Rickie Fowler, Jordan Spieth og Rory McIlroy léku allir á 68 höggum eða fjórum undir pari en sá síðastnefndi spilaði þrátt fyrir að hafa fengið matareitrun fyrr í vikunni.
HSBC Meistaramótið er fyrsta heimsmótið á tímabilinu og því eru margir bestu kylfingar heims meðal þátttakenda enda er verðlaunaféð gríðarlega hátt.
Bein útsending verður alla helgina á Golfstöðinni en útsendingartíma má sjá hér.
