Tónlist

Lítið um tímaeyðslu

Starri Freyr Jónsson skrifar
"Það var ekki legið of lengi yfir hlutunum heldur var flæðið svo rosalegt að það knúði fram þetta sköpunarverk," segir  Teitur Magnússon tónlistarmaður.
"Það var ekki legið of lengi yfir hlutunum heldur var flæðið svo rosalegt að það knúði fram þetta sköpunarverk," segir Teitur Magnússon tónlistarmaður. VÍSIR/STEFÁN
Fyrsta sólóplata Teits Magnússonar, gítarleikara og annars söngvara reggísveitarinnar góðkunnu Ojba Rasta, kom út í lok síðasta árs og fékk góða dóma. Í ár hefur Teitur fylgt plötunni eftir með fjölda tónleika og spilaði m.a. á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í síðasta mánuði við afar góðar undirtektir.

Ojba Rasta gaf út tvær plötur árin 2012 og 2013 sem nutu mikilla vinsælda. Aðspurður hvers vegna hann hefði gefið út sólóplötu á þessum tímapunkti segir hann það hafa verið hálfgerða tilviljun. „Eða kannski gripu örlögin í taumana? Ég hitti Mike upptökustjóra í Leifsstöð og varð samferða honum í bæinn. Á svipuðum tíma var ég að semja þessi lög og texta með frænda mínum, Skarphéðni Bergþórusyni, og svo fór bara boltinn að rúlla sumarið 2014. Þannig æxlaðist þetta sólóverkefni sem inniheldur þó heilmikla samvinnu og stuðning úr öllum áttum.“

Létt og grípandi

Platan, sem ber nafnið 27, er að hans sögn öðruvísi tónlist en hann hefur áður gefið út. „Hún er í grunninn grípandi og léttleikandi poppmúsík, orkestreruð með fjölbreyttum hljóðfærum. Það var ekki legið of lengi yfir hlutunum heldur var flæðið svo rosalegt að það knúði fram þetta sköpunarverk. Textarnir voru samdir jafnóðum eða gripnir glóðvolgir, jafnvel samplaðir upp úr næstu bók.“

Notkun exótískra hljóðfæra gerðist óvænt eins og margt annað í plötuferlinu. „Þegar ég kom í stúdíóið sá ég öll þessi hljóðfæri og áður enn ég vissi af þá voru helstu samstarfsmenn mínir, Arnljótur úr Ojba Rasta og Mike upptökustjóri, farnir að gera tilraunir með þau og hljóðheimurinn varð að veruleika. Fyrst var t.d. öll platan einungis sköpuð með trommuheilum og slagverki síðan ákváðum við að prófa að taka upp trommur inn á lögin. Sú tilraun varð svo lokaniðurstaðan. Þannig var það með nær allar tilraunirnar. Þær voru allar notaðar. Það var lítið um tímaeyðslu.“

Eitt lag plötunnar, Nenni, inniheldur texta eftir eitt helsta skáld Íslendinga, Benedikt Gröndal, og er frá 19. öld. „Það var frændi minn, Skarphéðinn, sem er skáld, safnvörður og grúskari sem á heiðurinn af því. Hann fann vísuna í einhverju grúski og benti mér á hana sem tilvalinn lagatexta. Hann er mikill Gröndalsmaður. Hann var einnig mín hægri hönd við alla textagerð á plötunni en við sátum saman í stofunni minni og brugguðum þessa texta fyrir plötuna.“

Tár á hvarmi

Teitur kom fram á síðustu Airwaves-hátíð sem haldin var í nóvember en hafði árin þar á undan spilað þar með Ojba Rasta.

„Upplifunin var magnþrungin og lauflétt í senn. Ég spilaði ásamt tíu félögum mínu lögin af plötunni í Iðnó. Þrátt fyrir að Tjörnin hafi verið frekar andlaus þá var salurinn það ekki. Ég fann fyrir sterkum meðbyr. Fólk frá ýmsum stöðum í heiminum söng með eftir bestu getu og glitta mátti í tár á hvarmi. Þeir gagnrýnendur sem mættu á svæðið létu fögur orð falla og er ég afar þakklátur fyrir það.“

Hann segist sjaldan hafa skemmt sér jafnvel á Airwaves eins og í ár. „Enda kynntist ég frábæru fólki og sá öfluga listamenn á milli þess sem ég tróð upp í ýmsum myndum og naut þess í botn. Það er líka gaman að sjá íslenskt tónlistarlíf vaxa og dafna til sjávar og sveita, innan lands sem utan. Það er jákvætt að sjá nýja kynslóð stíga fram af miklu öryggi. Nú er að halda saman á kyndlinum og sjá hvert hann leiðir okkur.“

Nýtt efni framundan

Um helgina var frumsýnt nýtt myndband frá Teiti frumsýnt en um er að ræða lagið Kamelgult. Leikstjórn er í höndum Sigurðar Möllers Sívertsen, trommuleikara Grísalappalísu, en myndbandið var skotið á 16 mm filmu og sýnir götulífið í Sarajevó, Bosníu-Herze­góvínu, þar sem Sigurður er í kvikmyndaskóla. Hægt er að horfa á myndbandið í spilaranum neðar í fréttinni.

„Í desember kem ég fram víða en þar má helst nefna feita tónleika á Húrra þann 17. desember þar sem ég kem fram með hljómsveit.“

Ný lög spretta stöðugt fram að sögn Teits sem bætir þeim jafnóðum við tónleikadagskrána. „Ég stefni á upptökur á nýju efni á næsta ári auk þess sem Ojba Rasta er komin aftur í gang með nýtt efni eftir stutt orlof. Ojba Rasta heldur þrettándaball þann 6. janúar á Húrra og það verður mergjað fjör! Það styttist einnig í upptökur þar á bæ.“

Í faðmi fjölskyldunnar

Nýlega eignuðust Teitur og unnusta hans litla stelpu en hún verður 13 vikna á morgun.

„Það er mikil blessun að eignast barn og jólin fram undan verða þau fyrstu hjá litlu fjölskyldunni saman. Jólin eru í sjálfu sér fjölskylduhátíð og dæmigerð hjá mér hvað það varðar. Ég held upp á vetrarsólstöðurnar, friðinn og hækkandi sól í faðmi fjölskyldu og vina. Hins vegar eru engin jól eins, og sérstaklega ekki núna þegar mér hefur fæðst dóttir; ljós lífs míns.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×