Menning

Aukatökur í Skaupinu vegna Almars og kassans

Jakob Bjarnar skrifar
Kristófer Dignus segir að alltaf sé einn gluggi opinn fyrir tökur ef eitthvað komi uppá sem alveg nauðsynlegt er að hafa með í Skaupinu -- og Almar í kassanum er sannarlega slíkur atburður.
Kristófer Dignus segir að alltaf sé einn gluggi opinn fyrir tökur ef eitthvað komi uppá sem alveg nauðsynlegt er að hafa með í Skaupinu -- og Almar í kassanum er sannarlega slíkur atburður. visir/stefán
„Við höldum alltaf gluggi opnum og jú, ég get staðfest það að allar líkur eru á því að kassinn komi í Skaupinu í einhverju formi,“ segir Kristófer Dignus Pétursson leikstjóri Áramótaskaups RÚV.

Hann verst allra frétta en Vísir hefur heimildir fyrir því að þeir sem að Skaupinu standa hafi fengið leyfi til að mynda kassann og nú er spurt hvaða leikari fær að fara þangað inn, ef einhver.

„Ég ætla ekkert að segja um það hver verður í kassanum né hvort það verði einhver í honum,“ segir Kristófer Dignus, ófáanlegur til að upplýsa frekar um þetta atriði sem er í vinnslu.

Aðaltökum lauk á laugardagskvöldið en nú er eftirvinnslan hafin. Leikstjórinn segir alltaf að einum glugga sé haldið opnum fyrir tökur gerist eitthvað sem algerlega er ómögulegt að láta hjá líða að gera skil. Almar nakinn í kassanum hlýtur að flokkast undir slíkt.

Almar virðir fyrir sér fárið handan glersins.visir/gva
Kristófer Dignus segir að vel hafi gengið, handritshópurinn hafi verið einstaklega samhentur og í raun séu lúxusvandamál ein sem blasi við:

„Gjöfult ár og af nógu að taka. Þetta er spurning um hverju á að sleppa frekar en nokkuð annað. Þetta hefur verið klikkað ár. Mikið rugl í gangi og af nógu að taka.“

Leikstjórinn upplýsir jafnframt að þetta sé spéspegill á þjóðina fremur en ákveðna einstaklinga; „þetta er almennt grín á þjóðina og hversu rugluð við erum. Ekki mikið pólitískt grín.“

Þau sem verða helst áberandi í Skaupinu verða Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gói Karlsson og Steindi Jr. auk þess sem Hannes Óli Ágústsson er æviráðinn sem Sigmundur Davíð. Leikstjórinn segir þetta tengjast handritshöfundunum, nema Atli Fannar Bjarkason verður ekki í mynd, hann getur ekki leikið þó hann ætti að vinna sér það til lífs, að sögn leikarans. „Ekki frekar en hurð.“

En, er leikstjórinn ekkert stressaður?

„Nei, ekki lengur. Ég hef gert eitt skaup og veit hvernig þetta er. Maður slakar á, fer ekki á Facebook og Twitter í einn tvo daga og svo heldur lífið áfram.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×