Undirritaður spilaði ekki fjölspilunarhluta leiksins, sem er það sem Starcraft leikirnir eru orðnir hvað þekktastir fyrir, en sá hluti leikjanna hefur ekki breyst mikið á undanförnum árum. Því má segja að óþarfi sé að fjalla um það. Þar má spila við aðila sem hafa varið miklum tíma í æfingar og jafnvel atvinnumenn sem geta gefið yfir 200 skipanir á mínútu. Hins vegar er nú í fyrsta sinn boðið upp á svokallað co-op þar sem spilara geta leyst skemmtileg verkefni með vinum eða ókunnugum.
Sem Artanis þurfa spilarar að fara í sameina alla Protoss til að standa gegn Amon. Borð leiksins eru ekki jafn mörg og í hinum tveimur, en á móti kemur að myndbönd eru mun fleiri og lengri en áður. Borðin eru þó mjög skemmtileg og geta reynt verulega á og þá sérstaklega á hærri erfiðleikastigum. Þá geta spilarar sniðið heri sína eftir eigin spilunarstíl með mismunandi uppfærslur á hermönnum og stríðstólum.

Blizzard er ekkert að fara út fyrir það þægindasvið sem hefur virkað svo vel fyrir þá. Leikurinn lítur vel út, en þó hefur graffíkin ekki breyst mikið frá 2010, og hljóðið er mjög vel heppnað. Hönnun borðanna er mjög góð. Myndbönd leiksins eru sérstaklega vel unnin og gera mikið fyrir upplifunina. Þá eru þau fleiri og umfangsmeiri en áður og spila stóran þátt í að loka sögunni. Það er þó fyrsta og fremst spilunin sjálf sem skín í Legacy of the Void.