Leikurinn er gerður af íslenska fyrirtækinu Lumenox og á uppruna sinn að rekja til Game Creator-verðlaunanna, sem hann hlaut árið 2011. Um er að ræða fyrsta leik þeirra sem að honum koma og í samtali við Vísi sagði Jóhann Ingi Guðjónsson, markaðsstjóri Lumenox, að hann væri alls ekki sá síðasti.
Aaru, sem er hetja leiksins, þarf að leysa ýmsar þrautir og til þess beitir hann loftfimleikum og fjarflutningum. Skjóta þarf kúlu á milli óvina til að birtast hinum megin við þá og halda ferðinni áfram. Einnig er hægt að skjóta kúlunni beint í þá og gera út af við þá.
Ákvarðanir þarf mjög oft að taka á stuttum tíma og auðvelt er að ruglast á áttum. Að auki kemur fyrir að nauðsynlegt er að hoppa fram af syllum án þess að sjá hvað er fyrir neðan. Það endar yfirleitt með dauða og endurtekningu. Aaru's Awakening er þó skemmtilegur leikur og er kjörinn fyrir einstaklinga með keppnisskap og þolinmæði.