„Ég ætla að fjalla aðeins um sköpunargáfuna. Hún kemur við sögu í leitinni að hamingju því hún býr í öllu fólki og kenningar eru um að með því að rækta hana upplifi það meiri hamingju,“ segir Gunnar Hersveinn um efni heimspekikaffisins í Gerðubergi á miðvikudaginn.
Hann segir sköpunina ekki endilega þurfa að tengjast list, heldur geti hún nýst við hin ólíkustu verkefni svo sem tilraunir og þekkingarleit.
„Með sköpunargáfunni leitum við til dæmis að visku í bókmenntum, við lesum sögu og hún veitir okkur innsýn í mannlegt eðli,“ segir hann og kveðst hafa mikinn áhuga á að varpa ljósi á samband hamingju og sköpunar.
Ásamt Gunnari mun Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur leiða umræður um hamingjuna á heimspekikaffinu á miðvikudaginn og reyna að finna þráðinn milli sköpunar og hamingju með hjálp gesta.
Mikil aðsókn hefur verið á heimspekikaffið í Gerðubergi að undanförnu. Dagskráin þar hefst klukkan 20.
Sköpunarkrafturinn og hamingjan
