Menning

Þarf líklega að drekka aðeins meira latte

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þú getur ímyndað þér hvað þetta er snyrtileg sýning, allar myndirnar meira og minna þvegnar!“ segir Daði léttur.
"Þú getur ímyndað þér hvað þetta er snyrtileg sýning, allar myndirnar meira og minna þvegnar!“ segir Daði léttur. Vísir/Stefán
Útvarpið er hátt stillt á vinnustofunni hjá Daða Guðbjörnssyni listmálara, hann er að hlusta á tónleika frá Myrkum músíkdögum. „Hluti af því að vera í þessum bransa er að fylgjast með því sem verið er að gera,“ segir hann. „Þannig fær maður inspírasjón og nútímatónlist getur verið stórskemmtileg.“

Hann er í óða önn að taka til ný vatnslitaverk til hengja upp á Mokka við Skólavörðustíg, þar opnar hann sýningu í dag. „Ég vil sýna þar sem fólk droppar inn, er alþýðlegur að því leyti. Mokka er heimavöllur latteliðsins,“ segir hann og kveðst sjálfur koma þangað ansi oft að hitta félagana. „Þetta er næstum eins og að sýna á kaffistofu vinnustaðar síns,“ segir hann glaðlega.

Stundum kveðst Daði sitja á Mokka með einum kennara sínum úr barnaskóla, Hafsteini Austmann. „Hafsteinn er eiginlega Íslandsmeistarinn í Akureyrartækninni í vatnslitun sem er þannig að hvíti liturinn er alltaf pappírinn sjálfur. Það er ekki eins og í olíunni þar sem endalaust er málað yfir og lagað, heldur þarf maður að sjást fyrir og vera heppinn. Í myndlist verður samt auðvitað alltaf að vera eitthvað óvænt, helst einhver mistök sem þarf að redda.“

Daði kveðst nota tækni sem Hafsteinn sé þekktur fyrir, hún felist í að þvo myndirnar. „Þegar málað er aftur yfir kemur fínn tónn í bakgrunninn. Þú getur ímyndað þér hvað þetta er snyrtileg sýning, allar myndirnar meira og minna þvegnar,“ segir hann hlæjandi og kveðst hafa reynt að ná þessari vatnslitatækni í þrjátíu ár, eiginlega frá því hann byrjaði að mála. Nú telur hann það vera að takast. „Ég geri samt ekki eins stórar myndir og Hafsteinn, enda erum við ólíkir listamenn,“ segir hann. „Þarf líklega að drekka aðeins meira latte áður!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×