Að læra orðið sól á mörgum tungumálum er meðal þeirra verkefna sem fundið er upp á í dag í Borgarbókasafninu í Gerðubergi í Breiðholti. Þar verður dagskrá í tilefni af alþjóðadegi móðurmálsins milli klukkan 14 og 16.
Dagskráin hefur yfirskriftina Málið þitt og málið mitt og hefst á því að Sóla sögukona segir sólarsögu. Síðan verða sungin sólarlög. Allt gæti þetta verið í tilefni þess að sól er farin að hækka á lofti á landinu okkar.
Í Smiðjunni Lifandi tungumál munu börn svo kenna börnum tungumál og að endingu mun Jón Víðis töframaður gera ýmsar kúnstir.
