„Við erum með ágæta efnisskrá. Á henni er meðal annars hið hið magnaða verk Quartet de forme Liturgique eftir Jacques Charpentier. Það er fallegt og aðgengilegt fyrir áheyrendur en býsna flókið í samsetningu og því talsverð áskorun að spila það,“ segir Stefán Ómar Jakobsson básúnuleikari.
Stefán er einn þeirra sem tilheyra kvartettinum Los Trombones trans Atlantico sem spilar á hádegistónleikum í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 24. febrúar, milli klukkan 12.15 og 12.45.
Stefán nefnir líka verkið Coral sem er eftir annan básúnuleikara kvartettsins, Ingibjörgu Azima, sem einnig spilar í rokksveitunum Smurjóni og Sauðreknum.
Kvartettinn Los Trombones trans Atlantico var stofnaður í apríl 2014 af David Bobroff, bassabásúnuleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og þá er aðeins ónefndur sá fjórði í kvartettinum, það er Carlos Caro Aguilera.
Kaffisopi er á könnunni eftir tónleikana í Hafnarfjarðarkirkju og aðgangur er ókeypis.
