„Ég man varla eftir öðru eins,“ segir Ásmundur Jónsson, eigandi plötuútgáfunnar og verslunarinnar Smekkleysu, um söluna á plötu rapparans Gísla Pálma sem kom í verslanir í gær. Ásmundur segir að platan fari á stall með plötunni Kveikur, með hljómsveitinni Sigur Rós, þegar kemur að sölu á fyrsta degi. Kveikur kom út árið 2013. Þessar plötur eru þær vinsælustu í sögu Smekkleysu.
„Ég er búinn að vera lengi í þessum bransa. Þetta minnir mann bara á tíunda áratug síðustu aldar. Hér mynduðust biðraðir og eintökin ruku út. Platan var líka pöntuð víða um land og meira að segja alla leið til Bandaríkjanna,“ útskýrir Ásmundur.
Hann segist ekki hafa séð fyrir hvers konar bakland rapparinn á. „Aðdáendur hans standa greinlega vel við bakið á honum. Það er svo gaman að finna svona stemningu. Þetta er svo upplífgandi, að sjá að ungt fólk er alveg tilbúið að kaupa tónlist.“
Þegar Gísli Pálmi er spurður um viðtökurnar á fyrsta degi er svarið einfalt: „Ég er orðlaus. Þakklætið er í hámarki.“

