Staðfest hefur verið að rapparinn Gísli Pálmi hljóti þann heiður að vera einn þeirra sem hita upp fyrir bræðurna í Rae Sremmurd á tónleikum þeirra í Laugardalshöllinni 27. ágúst.
„Þessir bræður eru að gera mjög skemmtilega hluti og eru í smá uppáhaldi þessa dagana,“ segir Gísli spurður hvort hann sé ekki spenntur að hita upp fyrir þá.
„Það er mikil uppsveifla í hipphoppi í dag og þeir eru mjög áberandi í augnablikinu,“ bætir hann við. Bræðurnir njóta gríðarlegra vinsælda í dag og eru á hraðri uppleið.
Til að mynda tróðu þeir óvænt upp á tónlistarhátíðinni Coachella í apríl, þegar þeir komu á svið hjá plötusnúðnum DJ Snake ásamt rapparanum DMX við gríðarlegan fögnuð áhorfenda. Því má búast við hipphoppfestivali í Laugardagshöllinni í sumar.
