Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson, sem er flestum kunnur sem stofnandi og yfirhönnuður tískuhússins JÖR by GUÐMUNDUR JÖRUNDSSON, stendur fyrir tveggja vikna fatahönnunarnámskeiði.
„Ég man þegar ég var að byrja í náminu að það vantaði svona svolitla kynningu á þessu. Þegar ég byrjaði í LHÍ vissi ég ekkert hvað ég var að gera,“ segir hann og bætir við: „Innsýn inn í hvernig þessi bransi er frá einhverjum sem er búinn að vera að vinna í þessu, það er svona svolítið öðruvísi en námið.“
Námskeiðið, sem taka mun á helstu undirstöðuatriðum hvað varðar hönnun og gerð fatalínu, stendur yfir í tvær vikur og mun nemendum verða úthlutað heimaverkefnum og munu þeir hanna eigin fatalínu.
„Rannsóknarvinnan verður líka kennd, en hún er mikilvægur þáttur í þessu, kynna það að halda utan um skissubók, velja efni og liti sem fitta og svona,“ segir Guðmundur og að hans sögn eiga bæði byrjendur og lengra komnir heima á námskeiðinu sem hugsað er fyrir fimmtán ára og upp úr.
„Það er áhugavert að sjá um hvað þetta snýst og ef maður er að pæla í að fara að læra þetta þá fær maður svona „touch base“,“ segir Guðmundur að lokum.
Námskeiðið hefst þann 17. maí næstkomandi og stendur yfir í tvær vikur en fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við info@jorstore.com.
Innsýn í hvernig bransinn virkar
