Hrólfur Sæmundsson baritón og Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem leikur á píanó, orgel og harmóníum, koma fram með Björgu á fyrstu tónleikunum nú á sunnudaginn sem hefjast klukkan 14.
Rómantíkin er í öndvegi því fluttar verða söngperlur um rómantíkina og frá rómantíska tímabilinu. Björg segir sumarið kalla á slíkar áherslur; náttúran, veðrið og birtan.
Dr. Pétur Pétursson mun hefja samkomuna á því að segja í stuttu máli frá kirkjunni og ljósi engilsins sem birtist sjófarendum í sjávarháska.
Tónleikarnir eru rétt innan við klukkutíma að lengd, að sögn Bjargar. „Kirkjubekkirnir bjóða eiginlega ekki upp á meira,“ segir hún en bendir á að fólk geti tekið með sér púða til að gera setuna enn bærilegri.

„Þetta byrjaði smátt en hefur undið upp á sig. Mér þótti svo einstakt að syngja í þessu magnaða guðshúsi og fólki þótti vænt um að fá tilefni til að fara þangað og hlýða á tónlist.
Selvogurinn er sjarmerandi og sunnudagsbíltúr þangað getur sameinað náttúruskoðun, tónlistarupplifun, fræðslu um helgi staðarins og hressingu heimamanna í T-búðinni eða Pylsuvagninum.“