Magni segir að veðrið hafi leikið við gesti hátíðarinnar eins og svo oft áður og að sólin hafi komið sem leynigestur á hátíðina. „Það hafði ekki sést sól hérna í svona sex vikur en svo klukkan tólf á hádegi á laugardag kom sólin og það kom geggjað veður. Svo í hádeginu á sunnudag var komin þoka. Við skiljum þetta ekki lengur, þetta er ellefta Bræðslan í röð þar sem sólin skín,“ segir Magni, sem er einmitt gjarnan kenndur við það að vera á móti sól.
Fyrir utan sjálfa Bræðslutónleikana sem fram fóru á laugardagskvöldið segir Magni að hálfgerð bæjarhátíð sé að myndast á Borgarfirði eystri í kringum tónleikahátíðina. „Það voru til dæmis smekkfullir tónleikar í félagsheimilinu, böll á öðrum stöðum hérna, leikhópurinn Lotta og Lína Langsokkur voru hérna og einnig útimarkaðir. Þetta er orðið að bæjarhátíð sem er samt í raun óskipulögð í þeim skilningi,“ bætir Magni við.
Um 800 manns sóttur Bræðslutónleikana og er talið að um tvö til þrjú þúsund manns hafi verið á Borgarfirði eystri þegar mest lét um helgina.



