Menning

Margslungið og magnað einleiksform

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Hátíðin byrjaði með heljarinnar fiskiveislu.
Hátíðin byrjaði með heljarinnar fiskiveislu. Myndir/Hlynur Kristjánsson
Vestfirðir geyma fjölmarga gullmola en á Suðureyri má finna einstaka listahátíð sem gengið hefur í rúman áratug. Einleikjahátíðin Act Alone hefur verið haldin aðra helgina í ágúst síðustu misseri og býður gestum ekki einungis upp á fjölbreytta dagskrá þar sem einleiksformið er í fyrirrúmi heldur einnig vestfirska gestrisni eins og hún gerist best.

Íbúar Suðureyrar eru tæplega þrjú hundruð en á hverju ári taka þorpsbúar höndum saman til þess að skapa virkilega skemmtilega stemningu í bæjarfélaginu.

Hlutverkaskipan skipuleggjenda er álíka fjölbreytt og dagskráin. Rútubílstjóri hátíðarinnar, Gunnar, sér ekki einungis um að koma gestum til Suðureyrar heldur starfar hann einnig á kaffihúsi þorpsins svo að eitt dæmi sé tekið.

Elfar Logi Hannesson hefur verið listrænn stjórnandi Act Alone frá byrjun og virðist hafa þann einstaka hæfileika að vera á mörgum stöðum í einu, á meðan hann er í símanum eða að spjalla við hátíðargesti. Hann er potturinn og pannan í öllu skipulagi, verkefnavali og hafsjór upplýsinga en tæplega ársvinna liggur að baki hverri hátíð.



Í fyrra sóttu tæplega 3.000 gestir Act Alone og allar líkur eru á að sú tala hækki í ár. Þess má geta að allir viðburðir eru ókeypis og allir aldurshópar eru hvattir til að mæta, ekki er óvanalegt að sjá margar kynslóðir á sömu sýningu.

Sýningarnar eru að mestu haldnar í Þurrkveri, gömlu fiskverkunarhúsi með gullfallegu útsýni yfir fjörðinn, og félagsheimili staðarins.



Fullt hús var á upplestri Þórarins Eldjárn í félagsheimilinu.
Jón Viðar sló í gegn

Fyrsti dagur hátíðarinnar gekk, að sögn aðstandenda, gríðarlega vel. Hann byrjaði með heljarinnar fiskiveislu og fullt hús var í félagsheimilinu á upplestri Þórarins Eldjárn og Barry and his Guitar eftir Braga Árnason sem einnig leikur aðalhlutverkið, en hann er nú að sýna sömu sýningu á Edinborgarhátíðinni í Skotlandi.

Dagskrá fimmtudagsins var fjölbreytt og byrjaði á tilraunatónlist eftir Kristínu Lárusdóttur sem blandar saman náttúruhljóðum, teknótöktum og lifandi sellóleik. Síðar um kvöldið flutti Kristín G. Magnús verkið Hringferðin þar sem hún rifjaði upp þætti úr klassískum erlendum verkum eftir Shakespeare og Chekhov en lauk sýningunni með framsetningu á Djáknanum á Myrká við kertaljós.

Heimsfrumsýning á Act Alone – heimildarmynd batt svo endahnút á daginn. Baldur Páll Hólmgeirsson leikstýrði myndinni en Ársæll Níelsson framleiðir. Myndin fer yfir sögu hátíðarinnar, stefnu og umgjörð en hún var tekin upp árið 2013 þegar hátíðin hélt upp á tíu ára afmæli sitt. Elfar Logi er hjarta myndarinnar þar sem við fylgjumst með honum og starfsfólki hátíðarinnar takast á við þau fjölmörgu og óvæntu verkefni sem dúkka upp á viðburði sem þessum og einnig er rætt við listafólk úr öllum áttum. Og það er einn af stjórnarmönnum hátíðarinnar, Jón Viðar Jónson, sem slær óvænt í gegn með einstaklega kómísku innskoti.





Bragi Árnason hendist á milli Suðureyrar og Edinborgar með sýningu sína Barry and his Guitar.
Vísindanámskeið og uppistand

Föstudagurinn býður upp á allt frá leiklestri á nýju íslensku leikriti, fyrirlestri um húmor, tónleikum og tilraunadansverki en dagskrá lýkur ekki fyrr en vel eftir miðnætti.

Þess má geta að nær allir einleikir dagsins eru eftir konur en Doría eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur og Helga Sverrisson vann fyrstu verðlaun í einleikjasamkeppni hátíðarinnar árið 2013.

Dagskrá lýkur síðan á laugardag (í dag), byrjar klukkan 13 með vísindanámskeiði í boði Ævars vísindamanns og endar ekki fyrr en á miðnætti.

Innsetning, barnaskemmtun, uppistand og tónleikar með KK eru einungis lítill hluti af dagskránni.

Háskólasetur Vestfjarða heldur íslenskunámskeið á Suðureyri á sama tíma þar sem íslenskukennslu og leiklist er blandað saman en nemendur mæta einnig á Act Alone til að kynnast íslensku leikhúsi. Áform eru um að stækka fræðsluhluta hátíðarinnar á næstu misserum.

Act Alone er spennandi viðburður í virkilega fallegum bæ sem vert er að fylgjast vel með í framtíðinni.

Ókeypis rútuferðir eru frá Ísafirði til Suðureyrar, en keyrt er frá Hamraborg og stoppað á kaffihúsinu Fisherman.

Allar frekari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu Act Alone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×