„Við ætlum að flytja bæði íslensk og erlend lög og slá á létta strengi inn á milli,“ segir Einar Clausen söngvari glaðlega og á þar við tónleika hans og Arnhildar Valgarðsdóttur, organista í Fella-og Hólakirkju, annað kvöld, miðvikudag. Þeir tilheyra tónleikaröðinni Frjáls eins og fuglinn.
„Undirtitill tónleikanna er Fúsi fer til Ítalíu því við verðum með lög Sigfúsar Halldórssonar og ítalska tónlist í bland,“ lýsir Einar.
Hann hefur starfað óslitið við tónlist frá árinu 1990 og komið víða fram sem einsöngvari, meðal annars með kórum og hljómsveitum á borð við Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Tónleikarnir í Fella-og Hólakirkju hefjast klukkan 20 annað kvöld og standa til um 21.30. Kaffisopi er í hléinu. Aðgangur kostar 2.500 krónur en 1.500 fyrir eldri borgara og öryrkja og ókeypis er fyrir börn. Ekki er posi á staðnum.
