Í leiknum er hægt að spila sem einhver af fjölmörgum hetjum Marvel, í opnum heimi, sem að mestu gengur út á að lumbra á vondum körlum, brjóta allt og byggja eitthvað sem hægt er að nota. Hann fjallar um söguþráð sex kvikmynda Marvel en á mjög sérstakan hátt.
Inn á milli eru mörg klassísk LEGO grínatriði og er leikurinn jafn skemmtilegur fyrir bæði börn og fullorðna.
Þegar kemur að göllum leiksins eru þeir nokkrir. Oft á tíðum er erfitt að átta sig á því hvað það er sem þarf að gera, sérstaklega í byrjun leiksins. Svarið leynist þó oftar en ekki í því að skemma fleiri hluti þangað til hægt er að byggja eitthvað.
Þá er stundum svo mikið um að vera, að erfitt er að sjá hvað er að gerast á skjánum og auðvelt er að lenda í því að hlaupa fram af einhverjum sem ekki mátti hlaupa fram af.
Þó bardagar feli að mestu í sér að ýta eins oft og hægt er á kassanna þá eru allar hetjurnar einnig með sérstaka árás. Sérstakar samblöndur af hetjum mynda líka sérstakar árásir. Þór getur lamið á skjöld Captain America og myndað stóra höggbylgju og svo framvegis.
Kvikmyndir LEGO og tölvuleikir sem fyrirtækið hefur gefið út undanfarin ár hafa notið mikilla vinsælda fyrir léttan húmor sem finna má nóg af í LMA. Sem gerir leikinn líka kjörinn fyrir foreldra að spila með börnum sínum. Ekki er víst hvor mun skemmta sér betur.