Íslenski boltinn

Tufegdzic kominn aftur til Víkings

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vladimir Tufegdzic í leik á móti FH í fyrra.
Vladimir Tufegdzic í leik á móti FH í fyrra. vísir/vilhelm
Serbneski framherjinn Vladimir Tufegdzic er formlega genginn í raðir Pepsi-deildar liðs Víkings á nýjan leik, en hann fær félagaskipti á morgun.

Túfa, eins og hann er kallaður, kom til landsins fyrir nokkrum vikum og hefur verið að æfa með liðinu, en nú má hann spila með Fossvogspiltum á ný.

Tufegdzic kom á miðju sumri til Víkinga í Pepsi-deildinni í fyrra og átti stóran þátt í að bjarga liðinu frá falli.

Hann byrjaði á því að skora og leggja upp fjögur mörk í 7-1 sigri á Keflavík, en í heildina skoraði hann þrjú mörk og lagði upp önnur sex á seinni hluta Pepsi-deildarinnar síðasta sumar.

Þessi 25 ára gamli framherji má spila með Víkingum gegn Grindavík í Lengjubikarnum annað kvöld. Víkingar eru á toppi riðils þrjú í Lengjubikarnum eftir sigra á 1. deildar liðum HK og Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×