Veiði

Sleppa hátt í 600.000 seiðum á næsta ári

Karl Lúðvíksson skrifar
Eystri Rangá hefur um árabil verið ein af bestu laxveiðiám landsins en eins og með systuránna Ytri Rangá er veiðum haldið uppi með seiðasleppingum.

Í fyrra veiddust 2.529 laxar í Eystri Rangá en besta veiðin var árið 2007 en þá veiddust 7.473 laxar.  Það verður bætt vel í sleppingar í vor eða í heildina sem nemur 300.000 seiðum sem á vafalaust eftir að skila góðu ári 2017.  það sem þó er meira spennandi fyrir unnendur Eystri Rangár eru fréttir af kaupum Veiðifélags Eystri Rangár á seiðaeldisstöðinni Laugalax á Laugavatni.  "Tímasetningin á þessum kaupum hentar okkur mjög vel því það er stefnan að auka verulega í sleppingar í Eystri Rangá strax næsta vor sem á þá eftir að skila sér í umtalsvert hærri veiði 2018 miðað við eðlilegar heimtur" sagði Einar Lúðvíksson Formaður veiðifélagsins í samtali við Veiðivísi.

"Við gerum ráð fyrir því að upp í 600.000 seiði sem verður sleppt vorið 2017 og ef heimtur haldast bara í meðallagi verða veiðimenn heldur betur varir við aukningu í göngum í ánna" bætir Einar við.  Vel hefur selst í Eystri Rangá fyrir komandi sumar og er svo komið að júlímánuður er svo gott að heita uppseldur og eitthvað lítið er eftir af leyfum í ágústmánuði.  Meira er laust í september en það getur breyst mjög hratt, sérstaklega eftir að veiðin fer af stað og ef hún verður góð.  það verður spennandi að fylgjast með gangi mála í Eystri Rangá á komandi árum.

 

 






×